« Home | UndirbúningsferðJarlaskáldið fór við þriðja mann í... » | 4 DAGAR! » | 5 DAGAR! » | 6 DAGAR! » | 7 DAGAR! » | SpurningEr of snemmt að vera farinn að finna fyrir... » | ÓfeigurÍ dag eyddi Jarlaskáldið stærstum hluta vin... » | Flottir á fjöllumÞokkalegir-----------------------... » | Hæ hó og jibbíjei!Jamm, maður skellti sér upp í La... » | LaugarLaugar um helgina. Myndir hér.--------------... » 

mánudagur, júní 27, 2005 

Tveggja trippa tal

Jarlaskáldið hefur vanrækt sagnfræðiskyldur sínar þó nokkuð undanfarið, þótt það hafi reyndar verið allduglegt við að troða myndum á Netið hefur það látið ferðasöguskrif sitja á hakanum. Úr því er nauðsynlegt að bæta. Það eru tvær ferðasögur sem bíða Skáldsins, og til þess að æra ekki óstöðuga verður líkast til farið heldur hratt yfir sögu. En sjáum til:

16. júní-19. júní: Varmaland - Laugar í Sælingsdal

Þjóðhátíðartúrinn var asni veglegur í ár, enda sautjándi á föstudegi og því löng helgi. Það voru 8 manns á 4 bílum sem lögðu í hann um kvöldmatarleytið á fimmtudegi, Snorri og Katý á Galloper, herra og frú Andrésson á Barbí, Staffan og VJ á Hispa og loks Jarlaskáldið og Blöndudalur á Lilla. Veðurspá hafði gert ráð fyrir blíðu á suðvesturhluta landsins, og var ákveðið að aka upp í Varmaland í Borgarfirði í fyrsta áfanga. Þangað var auðvitað ekin góð fjallabaksleið, fyrst á Þingvelli, þá Uxahryggi, grófan jeppaslóða þaðan niður í Skorradal og loks bara malbikið þar til komið var í Varmaland í kringum 11. Þar var nokkuð hvasst og skítkalt, en aðalfundarstörfin sáu fljótt til þess að hlýja mönnum, en þeim lauk á fjórða tímanum um nóttina, í greddumóðu inni í bíl. Stórslysalaust.

Á fætur risu fyrstu menn fyrir klukkan tíu um morguninn, enda orðið ólíft inni í tjöldum, slík var blíðan. Að hefðbundnum morgunverkum loknum var haldið áfram, og stefnt á Laugar í Sælingsdal í Hvammsfirði í þessum áfanga, og auðvitað kom ekki annað til greina en að fara einhverja fjallabaksleið. Var í því skyni ekinn Langavatnsdalur, sem bauð upp á allt það jepperí sem menn kjósa sér, sull, hjakk, drullu og fleira gott. Á leiðinni var arkað upp á hól og flaggað bæði íslenskum fána í tilefni dagsins og sérlegum VÍN-fána. Tók ferðin því góða fjóra tíma inn í Hvammsfjörð, þar sem litið var á brúðarval í Búðardal, auk þess að Jarlaskáldið réðst á Barbí, en um fimmleytið náðum við loks áfangastað og byrjuðum á að skola af okkur ferðarykið. Því næst fundum við okkur tjaldstæði, en um svipað leyti bættist okkur liðsauki að norðan, herra og frú Toggi ásamt vinahjónum. Svo var grillað, og svo drukkið. Aðallega drukkið þó.

Laugardagur rann upp bjartur og fagur, og fólk árrisult eftir því. Verkefni dagsins var að aka Fells- og Skarðsstrandir, eða barkakýli Íslands eins og Jarlaskáldið kallar það jafnan. Sosum ekki mikið um þá ferð að segja, sáum landslag sem við höfðum ekki séð áður, en sosum ekkert stórmerkilegt. Sáum líka fyllibyttur við Staðarfell, sem var fallegt í ljótleika sínum. Eða eitthvað.
Í Laugar komum við aftur á fimmta tímanum, og skelltum okkur aftur í sund enda hafði bæst á ferðarykið. Um grilleyti barst enn frekari liðsauki, Frændi og Frænka mættu og var koma þeirra kærkomin, enda voru þau með aukabirgðir af söngvatni, sumir höfðu greinilega verið fullvarkárir í innkaupum fyrir helgina. Nokkru síðar mættu svo nýgift herra og frú Kristinsson ásamt pjakk, og voru þá 17 manns mættir í ferðina, sem er dágott og nokkuð viðeigandi í 17. júní ferð. Hvað svo? Grill, drykkja, meiri drykkja, drykkja á barnum, bullað í ættarmóti, bullað í kvenfólki, same old...

Þegar Jarlaskáldið reis loks úr rekkju daginn eftir var komið hávaðarok (ekki að það hafi raskað ró Skáldsins), og tjaldstæðið nánast orðið tómt. Þá var bara að pakka saman, og drulla sér í bæinn. Borgarinn í Hreðavatnsskála var annars fínn. Þessi ferð var líka helvíti fín.

Jæja, þetta gekk bara nokkuð vel, ekkert of langt er það? Þá er bara að vinda sér í næstu. Let's Go!

Jónsmessuferð í Þórsmörk

Humm, er nú mikið að segja um þessa ferð? Ja, allavega voru það þrír gallvaskir peyjar sem lögðu í hann um sjöleytið á laugardag þrátt fyrir heldur slappa veðurspá og ætluðu sér að gera lokakönnun á Þórsmörkinni fyrir FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferð sem er einmitt um næstu helgi. Hetjurnar þrjár voru Skáldið, Twist og VJ, og fararskjótinn Willy. Það rigndi á leiðinni. Alla leiðina. Rok m.a.s. á köflum. Sérlega spennandi. Jæja, við höfðum allavega Duran til að hlusta á. Fyrstu lækir á leið inn í Mörk voru bara nokkuð vatnsmiklir, sem benti til nokkurs vatnsveðurs, en viti menn, eins og hendi væri veifað stytti upp, birti til, og allt í bongó við Gígjökul. Aldrei bregst Mörkin. Renndum við inn í Bása í sama mund og kveikt var í varðeldnum, settum Íslandsmet í tjöldun, fylltum bakpoka af nesti og skunduðum svo á bál. Þar var stemmning með besta móti, og vorum við ekki lengi að koma okkur í heppilegt ástand til að njóta hennar sem best skyldi. Eitthvað þekktum við af fólki, og blönduðum geði við það, en þegar brennan brann sitt síðasta færðum við okkur inn í samkomuhúsið þar sem stemmning var engu minni. Ja, aumingja þeir sem voru heima að helluleggja. Ekki skal fjölyrt um afrek VÍN-liða, þau voru af ýmsu tagi og ekki allt prenthæft, en í það minnsta skiluðu allir sér í tjald að lokum, þótt það hafi ekki endilega verið rétt tjald í öllum tilvikum. Það er eins og gengur.
Daginn eftir þegar fólk fór að gægjast út var komið enn meira bongó, og klæðnaður eftir því. Svo fórum við heim. Æ, hvað það er gaman í Mörkinni. Kannski maður fari þangað bara aftur fljótlega...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates