föstudagur, maí 27, 2005 

Helgin

Helgin, já helgin. Jarlaskáldið var fyrir löngu búið að plana föstudagskveldið, þá átti að halda á tónleika, en svo nenntu Skotarnir bara ekki að mæta á klakann og koma víst ekki fyrr en í haust. Hvað gerir maður þá?

Ja, eitt er víst, ekki hangir maður heima og horfir á Hemma Gunn. Skáldið var að skoða veðurspána, og hún lítur alls ekki illa út. Væri þá ekki tilvalið að drullast út úr bænum? Jú, held það bara. A.m.k. einn maður hefur lýst sig fúsan til að slást með í för (hver annar?), og lýsir Skáldið eftir fleirum sem til eru að leggja land undir fót. Mörkin, Laugar, hvert sem er, skiptir ekki máli, bara að sofa í tjaldi og taka Müllersæfingar þegar maður vaknar og Skáldið er sátt. Nýta þetta sumar, stutt sem það er. Ekki endalaust hægt að helluleggja.

Í öðrum fréttum er það helst að Jarlaskáldið hefur eytt síðustu dögum í að glápa á fyrstu seríuna af spennuþættinum Tuttugu og fjórum, sem lillebror hefur látið mikið af, og haft bara nokkurt gaman af. Kannski að Skáldið horfi á næstu seríu líka, hún Kim er nú nokkuð áhorfanleg eftir allt saman.

Veit einhver hvar hægt er að fá strigaskó á þessu landi sem láta mann ekki líta út eins og hálfvita? Skáldið hefur mikið leitað, án árangurs. Er maður bara svona úr takti við tískuna?

Skáldið byrjaði á tónleikum, best að enda á sama hátt, því allt bendir til þess að Skáldið skelli sér á tvenna tónleika eftir ríflega mánuð. Á milli þeirra verður hátíð góð. Af henni skyldi enginn missa.

Fariði svo að gera eitthvað skárra en að lesa þessa vitleysu!

---------------------------------------------------------------------------------

fimmtudagur, maí 26, 2005 

Fótbolti

Maður hefði kannski haldið að þessi maður væri heldur fúll í dag. Svo er þó ekki. Hann er að sögn bara nokkuð sáttur með lífið og tilveruna. Svona getur fótbolti verið skrýtinn.

You'll Never Walk Alone.

------------------------------------------------------------------------------------

mánudagur, maí 23, 2005 

Kimi Raikkonen

Æ, ætli maður nenni að skrifa þessa ferðasögu. Sjáum til.

Það var júró um helgina. Jarlaskáldið gerði sér far um að kynna sér evrópska samvinnu í tilefni dagsins, fór á lendur skemmtanalífsins, kom óskemmt heim.

Hér séu myndir.

Annars áttu Nojararnir að vinna...

------------------------------------------------------------------------------

föstudagur, maí 20, 2005 

Hálfvitar

Þið eruð öll hálfvitar. Drullusokkar og aumingjar. Skíthælar og fúlmenni. Smekklausir asnakjálkar sem ekki hafa vit á neinu. Djöfull eruð þið vitlaus. Jarlaskáldið segir sig hér með úr Evrópu. Og svo er vond lykt af ykkur!

Að skemma svona fyrir manni gott djammkvöld!

------------------------------------------------------------------------------

miðvikudagur, maí 18, 2005 

Hring eftir hring



 Posted by Hello

Jarlaskáldið var á faraldsfæti um helgina, eitt stykki hringvegur tekinn í bakaríið. Ferðasaga verður jafnvel rituð, þangað til má skoða þetta.

------------------------------------------------------------------------------------

föstudagur, maí 13, 2005 

Þetta verður ekki gott blogg

Eitt og annað...

Fyrir réttri viku síðan keypti Jarlaskáldið sér nýjan gemsa, þar eð ljóst þótti að dagar hins gamla voru taldir eftir volkið í Mörkinni. Hann kostaði einhver lifandis ósköp, en er mörgum kostum gæddur, t.d. með ágætlega brúkhæfa myndavél og MP3-spilara. Jú, og svo ku víst bæði hægt að hringja úr honum og taka við símtölum, og jafnvel senda svokölluð SMS-skilaboð. Ekki amalegt það.


 Posted by Hello


Fyrir réttri viku en þó einum degi skemur brá Jarlaskáldið undir sig betri fætinum, og fór á dansleik. Sálin hans Jóns míns leik fyrir dansi og fórst það vel úr hendi eins og hennar er von og vísa. Með Skáldi í för var Twist, og drukkum vér Nastro Azzuro á Kaffibrennslunni til að hita oss upp. Það hafði tilætlaðan árangur.

Annars tíðindalítið að mestu.


 Posted by Hello

Um helgina er hvítasunna. Það þýðir þriggja daga frí. Af því tilefni mun Jarlaskáldið yfirgefa höfuðborgina um kvöldmatarleyti á föstudag og ekki sýna sig þar aftur fyrr en á mánudaginn. Hvert farið verður, og hverjir samferðamenn verða, á eftir að koma í ljós. Það er a.m.k. á hreinu að þeir sem ákveða að helluleggja um helgina eru kjánar.

...................................................................................

fimmtudagur, maí 12, 2005 


 Posted by Hello

Ætli þessi fái að skemmta sér um helgina?

--------------------------------------------------------------------------------

sunnudagur, maí 08, 2005 

Djammerí

Skáldið skellti sér á Sálarball á NASA í gær.

Stuð að vanda.


Nýi síminn tekur bara fínar myndir! Posted by Hello

-----------------------------------------------------------------------------------

fimmtudagur, maí 05, 2005 

Blautlegar frásagnir

Það hafa vafalaust margir lesendur þegar fengið að heyra hvað gekk á um síðustu helgi og endaði með þeim ósköpum sem myndirnar hér fyrir neðan sýna. Það er þó fyllsta ástæða til að rita um það örstutta sögu, enda ekki á hverjum degi sem maður lendir í öðrum eins hamförum. Er það saga bæði af hetjudáðum og heimsku. Jarlaskáldið átti þátt í hvoru tveggja.

Við byrjum sögu vora á laugardaginn, ca. miðjan. Jarlaskáldið kíkti þá í vinnuna í rúma tvo tíma, en kom heim rétt fyrir sjö og var þá búið að pakka niður hinum nauðsynlegasta viðlegubúnaði og versla sér bæði vott og þurrt því von var á Stefáni Twist á tryllitæki sínu og var meiningin að aka inn í Þórsmörk og eyða þar einni nótt eða svo í góðum félagsskap. Stefán mætti stundvíslega um sjöleytið og lá leiðin næst í glæpahverfið Fell þar sem Alda bættist í hópinn, enda vissara að hafa fulltrúa hreingerningadeildar með í slíka för. Við Rauðavatn hittum við fjóra förunauta okkar, Bergþórsson og frú ásamt gríslingum á nýbreyttri pæjunni, en skammt á undan okkur voru þrír að auki, þau skötuhjú Svenni og Halla ásamt Vigni, en fjórir sé hundskvikindið talið með. Voru þau einnig á pæju. Hún á eftir að koma meira við sögu.
Fyrsta stopp var eins og svo oft áður gert í Hnakkaville, á þeim eina stað sem telst því pleisi til tekna, og sameinuðust ferðalangarnir allir þar. Að áti loknu lá leiðin hina hefðbundnu leið austur, vítt og breitt um söguslóðir lessumyndbands Sálarinnar, þó búið sé að rífa kofann við Vegamót sem er hneisa! Næsta stopp var við Stóru-Mörk þar sem mýkt var í dekkjum, en svo bara fjósað inn eftir eins og druslurnar drógu. Árnar voru nánast bara sýnishorn af sjálfum sér, svo ekki voru þær til að hægja mikið á, svo fyrr en varði vorum við komin inn í Bása. Þar var fyrir hópur fyrrverandi fótbolta/handboltakellinga (lesist: trukkalessur) sem tóku okkur mismunandi vel, sumar vildu ekki sjá okkur í skálanum meðan aðrar voru gestrisnari, en það skipti engu máli því við vorum með tjöld og fundum okkur bara þetta fína tjaldstæði í góðu rjóðri. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvað við tók þegar búið var að tjalda (nema Bergþórsson, sem gleymdi tjaldstöngunum), glaumur og gleði og síðar vitleysa fram eftir nóttu, og segja myndir meira en mörg orð um það...

Úr rekkjum var ekki risið fyrr en langt var liðið á sunnudag, og veitti ekkert af þeim svefni eftir afrek næturinnar, sem skulu þó ekki nefnd hér af virðingu við hlutaðeigandi. Morgunverkin voru klassísk, matur, messa og Müller, en svo tóku skyldustörfin við, enda var yfirlýst markmið ferðarinnar að sinna eftirlitsskyldum fyrir FyrstuhelgaríjúlíárshátíðarÞórsmerkurferðíBolagil. Þangað lá því leiðin, yfir Krossá sem var tiltölulega meinlaus, og inn í Bolagil, þar sem eftirlitsskyldum var sinnt, kanna bílastæðið, bekkinn og kamarinn svo aðeins það helsta sé nefnt. Var svo hugað að því að halda heimleiðis, og á leiðinni var ákveðið að kíka upp að Lóni. Það átti eftir að reynast afdrifaríkt.
Það var fátt sem benti til að allt myndi fara til andskotans, bongóblíða og áin sakleysisleg að sjá, og eftir að hafa fleytt nokkar kellingar á lóninu fóru menn að gera sig líklega til að halda áfram. Vignir var við stýrið á pæjunni hans Svenna og fór fyrstur, en varð það á að keyra út í poll sem var þarna á leiðinni að vaðinu sem virtist saklaus en reyndist svona líka djúpur, bíllinn hreinlega féll fram af bakkanum og sökk og byrjaði að fljóta niður. Við Stefán vorum rétt fyrir aftan, görguðum upp yfir okkur þegar við sáum hvað var að gerast og hreinlega þustum út úr bílnum, fundum spotta í flýti í skottinu sem Jarlaskáldið tók, og hljóp með í átt að pollinum meðan Stebbi sneri bílnum við. Jarlaskáldið stoppaði í ca. tvær sekúndur við bakkann, svona rétt til að draga að sér andann, en óð síðan út í með annan enda spottans í hendinni. Kalt var það, og fljótlega kom í ljós að djúpt var það, því Skáldið sökk vel upp að bringu og fattaði nánast á sömu stundu að það var með bæði síma og myndavél á sér sem höfðu farið í kaf. Við því var lítið að gera, svo Skáldið hélt áfram, náði bílnum og með því að þreifa fyrir sér í kafi fann það krókinn og náði að setja lykkjuna á spottanum utan um hann. Var bíllinn þá búinn að reka svo langt í burtu frá bakkanum að spottinn dugði ekki til, en sem betur fer var Snorri með annan spotta sem var bætt við og tókst okkur því að draga bílinn aftur að bakkanum, en þar sat hann fastur með framhlutann að mestu í kafi.
Næsta mál á dagskrá var að reyna að draga bílinn upp á bakkann með báðum hinum bílunum, en það reyndist óvinnandi vegur svo hringt var í alla þá sem hugsanlega gætu komið til hjálpar meðan Snorri fór að leita að einhverjum inni í Mörk, en þar voru engir. Á meðan reyndi Jarlaskáldið að finna sér einhver föt enda blautt nánast upp í háls eftir sína hetjulegu en um leið heimskulegu björgun, því bæði sími og myndavél að verðmæti yfir 50.000 kr. höfðu farið í kaf og allar líkur á að væri ónýtt. Sem það og reyndist. Jarlaskáldið náði að klæða sig sæmilega þótt ekki væri um hámóðins tískufatnað að ræða, sem og þeir sem voru í bílnum og höfðu náð að skríða út um afturhlerann, en inni í bílnum var allt á kafi. Eins og nærri má geta var bílstjórinn ekki upp á marga fiska, en fólk bar sig þó vel enda hafði engum orðið meint af og a.m.k. tekist að ná bílnum áður en verr fór. Hafði eigandi bílsins m.a.s. á orði að bjórinn í bílnum hlyti að vera vel kældur, sem reyndist síðan rétt vera.
Eins og fyrr segir var hringt í alla sem hjálp gætu veitt, og voru Flubbar á FBSR3 fyrstir á staðinn, en sá bíll er ágætis ferlíki. Hann reyndist þó ekki duga til, jafnvel þótt hjálp fengi, og hélt sig á brott eftir sína misheppnuðu tilraun. Úr bænum komu svo loks þeir Birkir og nafni vopnaðir spili og drullutjakki og tókst með þeirra hjálp eftir smámaus að draga bílinn upp á bakkann. Tók dágóða stunda bara að tæma bílinn af vatni og var síðan byrjað að kanna ástandið á honum. Það var ekki hið besta, leir og drulla og vatn út um allt og vonlaust að reyna einhverjar viðgerðir, svo ekki var annað að gera en að draga hann áleiðis í bæinn, sem féll í hlut pabba hennar Höllu sem var þá nýmættur á stórum Econoline. Var hann svo dreginn að Stóru-Mörk en þar þótti ljóst eftir nokkrar tilfæringar á drifsköftum og fleiru slíku sem Skáldið veit minna en ekkert um að varasamt væri að draga hann lengra og var hann því skilinn eftir þar.
Heim var svo haldið og var fólk orðið dáldið meira en svangt eftir alla þessa bið, á Hvolsvelli var allt lokað sem og á Hellu svo það var ekki fyrr en í Hnakkaville að staður fannst sem var opinn, auðvitað stolt staðarins, sem þó hafði bara opna bílalúgu. Ekki mikið vandamál þegar húsbíll er með í för. BBQ-borgarinn hefur sjaldan bragðast betur. Heim kom svo Skáldið síðla kvölds, og ekki svo löngu síðar kom í ljós að bæði síminn og myndavélin voru ónýt. Yndislegt!

Þess ber að geta að skrjóðurinn var sóttur daginn eftir og bíður skoðunar. Vonum það besta.

Þess ber og að geta að um helgina er Jarlaskáldið meira en til í að gera einhverja vitleysu. Sálin anyone?

----------------------------------------------------------------------------------

mánudagur, maí 02, 2005 

Dýrt spaug

Mörkin var heimsótt um helgina. Þar fékkst svar við spurningunni: Getur ríflega tveggja tonna fulllestaður stálhlunkur flotið?

Svar: Já, í smástund. Svo sekkur hann.


 Posted by Hello


(Þess má geta að erfitt gæti reynst að ná í Skáldið í síma næstu daga. Sími þess virðist nefnilega ekki vera vatnsheldur. Hefði nú verið gaman að átta sig á því ÁÐUR en maður hljóp út í helvítis pollinn með kaðal og sökk upp að bringu!)


 Posted by Hello


Meira hér!

------------------------------------------------------------------------------

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates