þriðjudagur, mars 20, 2007 

Agureyrish 2007Síðasta helgi var löng. Skrambi löng, en líka fjári skemmtileg. Þar sem Jarlaskáldið skuldar tvær vikur af bloggi er þó vissara að geta í örstuttu máli atburða sem gerðust á undan þeirri helgi, þar er af einhverju að taka.

Sem fyrr segir hóf Jarlaskáldið vinnu sem þýðandi um mánaðamótin. Það hefur að mati fróðra manna gengið stóráfallalaust, a.m.k. hefur enginn enn rekist á meinlegar þýðingarvillur, sem gæti reyndar skýrst af því að áhorfið á þá þætti sem Skáldið sér um er ekki beint gríðarlegt. En það hlýtur að styttast í einhverjar gloríur, annað væri bara asnalegt.

Svo við höldum okkur við vinnuna þá lagði Jarlaskáldið í merka för laugardaginn 10. mars, óvissuferð mikla. Myndavélin var með í för og má sjá afraksturinn hér. Annars var þetta ágætasta ferð, barst leikurinn vítt og breitt um Suðurnes í skítaveðri en áfengisnefnd var í miklu stuði og hafði það fyrirsjáanlegar afleiðingar, annars sómakærir vinnufélagar sýndu á sér nýjar hliðar og gott ef ekki nýja líkamsparta og allt endaði þetta á A. Hansen í Álfirði og síðar meir í borg óttans. Hress stemning í vinnunni á mánudeginum.

Víkjum þá að máli málanna, Agureyrishferð 2007. Hún sló öllum þeim fyrri að flestu leyti við og ekki eins og þær hafi verið leiðinlegar.
Brottför hjá Jarlaskáldinu og reyndar velflestum öðrum var á fimmtudaginn, um hálfsjöleytið hjá voru föruneyti en það skipuðu auk Skáldsins Haffi og Alda á Sigurbirni, og þau Vignir, Gústi og frænkan á smábíl. Það er sosum ekki margt frá norðurferðinni að segja, etið var í Hreðavatnsskála sem er sennilega besti matur sem hægt er að fá á þessari leið, smásnjómugga öðru hverju á leiðinni en við skiluðum okkur á staðinn um hálftólfleytið og fundum okkur þar bedda í Furulundinum.
Þar fjölgaði svo er leið á nóttina og fleiri náðu til byggða, 14 manns á staðnum er mest var, en þeir gestir voru til allrar hamingju með aðra gistingu. Svo voru það bara nokkrir kaldir en haldið í bælið tiltölulega snemma til að mæta snemma í fjallið.

Það var rífandi hressleiki í gangi þegar vaknað var á tíunda tímanum á föstudeginum, við Vignir vorum sendir út af örkinni og sóttum morgunhressingu til Kristjáns bakara, og að öðrum morgunverkum liðnum var haldið í fjallið. Þangað mættum við upp úr 11, og leigði Haffi sér snjóbretti til að renna sér á í fjallinu, en slíkan grip hafði hann ekki stigið á svo heimildir væru um. Einkar gáfulega gert hjá Haffa, sem hafði greinilega séð ljósið og hve miklu meira töff er að vera á bretti en eins og einhver bjáni á tveim plönkum. Var það sumsé helsta verkefni Skáldsins fyrsta kastið að segja Haffa aðeins til í fræðunum en hann var farinn að renna sér eins og vindurinn fyrr en varði og hlaut aðdáun og athygli allra sem á svæðinu voru, líkt og reyndar Skáldið gerir ávallt. Færið í fjallinu var síðan alger snilld, allt fullt af snjó, og reyndar aðeins of mikill snjór, því það var allt hvítt og maður sá stundum ekki neitt. Maður ætti samt ekki að vera að kvarta.
Um tvöleytið var gerð matarpása á Subway en síðan haldið áfram og sleppti Skáldið þá Haffa lausum og fór að reyna fyrir sér utanbrautar. Það var gaman. Upp úr fimm fór svo að hægjast um, teknir drekkutímar til að hlaða batteríin enda nauðsynlegt að vera hress. Telemarkararnir lögðu sitt af mörkum og buðu upp á veitingar og eiga þakkir skildar. Opið var í fjallinu til níu þetta kvöld og einhverjir munu hafa enst svo lengi en Jarlaskáldið fór ásamt öðrum heim í Furulundinn nokkru fyrr og síðan í sund og var það hressandi. Rétt fyrir tíu fóru svo íbúar í Furulundi 10H ásamt tveim gestum á Strikið til að fá sér hressingu, og voru reyndar heppnir að ná inn því klukkan tíu var lokað. Strikið reyndist heldur dýrari staður en haldið hafði verið fram en úrvalsmatur í boði og sosum peninganna virði, auk þess sem Vignir gladdi gesti með töktum í bjórhellingum. Jarlaskáldið fékk sér kjúlla, og mælir með honum.
Eftir matinn var ekki annað í stöðunni en að kíkja á næturlífið, og lá leiðin fyrst á Cafe Amour. Ekki er vitað til þess að hún hafi legið mikið lengra, því þar var gaman. Á staðnum var trúbador, Hlynur Ben, sem okkur leist nú bara rétt mátulega vel á fyrst, en hann var þvílíkur stuðbolti, söng öll óskalög sem við báðum um, hversu heimskuleg sem þau voru, og var bara almennt hress. Fjári gaman. Annars var þetta bara klassískur fíflagangur a la VÍN, fórum heim þegar við fórum heim, og lenti Jarlaskáldið í samlokuslysi á leiðinni. Var þá talsvert búið að ræða goggunarröð skíðamanna. Þeir sem vilja fræðast meira um hana eru beðnir um að hringja í 6914258 og spyrja um Stefán. Hann útskýrir þetta.

Laugardagurinn heilsaði ekki jafn bjartur og fagur og föstudagurinn, þó svo að veðrið hafi verið betra. Þokan var aðallega stödd inni í hausnum. Síðustu menn fóru þó á fætur um ellefuleytið, og meikuðu allir að fara upp í fjall með dyggri aðstoð Bakarísins við brúna. Stelpurnar höfðu sem von var heillast af glæsilegum töktum okkar Haffa og ákváðu að leigja sér bretti, sem og Gústi reyndar, en hann varð að hætta við þar sem ekki virðist sem framleiddir séu skór í hans stærð. Hann prófar bara næst.
Dagurinn var annars bara jafn frábær og sá fyrri ef ekki betri, betra skyggni og frábært færi og svakastemning í fjallinu enda ekki von á öðru þegar 20 VÍN-liðar eru á sama stað, þótt einhverjir vilji meina að telemarkpakkið hafi átt sinn þátt í þessu. Örlítinn, kannski. Rútínan var annars svipuð, skíðað þar til menn fengu nóg og þá haldið í sund, upp í íbúð að hita upp fyrir kvöldið og svo klukkan níu var búið að panta fyrir 18 manns á Greifanum. Skáldið fékk sér lúðu, assgoti góð. Þaðan héldu flestir á Vélsmiðjuna þar sem telemarkpakkið var að djamma, og miðað við myndir barst leikurinn hingað og þangað eftir það, celebar böggaðir sem og almenningur, en fyrst og fremst bara helvíti gaman. Lélegt hjá Öldu að þiggja ekki tilboð Steins Ármanns, hún á eftir að sjá eftir því síðar meir. Einhverjir héldu svo fjörinu áfram uppi í íbúð síðla nætur, og þegar Jarlaskáldið rumskaði í bæli sínu um nóttina sem það hafði þurft að deila með Vigni tók það eftir að þar hafði fjölgað aðeins. Ekki minntist Skáldið þess að hlaupið hefði á þess snæri. Furðulegt. Vonum bara að leynigestnum hafi líkað vistin.

Sunnudagurinn fór hægt af stað. Þær fregnir bárust fljótlega að Holtavörðuheiðin væri ófær og síðar að hún yrði ekkert opnuð. Eftir hinar og þessar pælingar og eitt stykki sundferð var að lokum ákveðið að freista þess að gista eina nótt til á Agureyri, þ.e.a.s. ef gisting væri í boði. Það gekk, að vísu þýddi það að allir gistu í okkar íbúð, en þröngt mega sáttir liggja. Til að gera eitthvað var farið í bíó á hina sögulega kórréttu mynd 300. Skrambi góð mynd bara, og ef það er eitt orð sem lýsir henni: Macho. Hvernig getur það verið vont? Svo var farið upp í íbúð en fljótlega haldið í bælið eða hvað sem menn fundu sér til að sofa á, enda ræs klukkan sex.

Og ræst var klukkan sex. Þá bara komið fínasta veður, íbúðin hreinsuð á fimmtán nanósekúndum enda margir til taks og haldið heim í bongóblíðu. Komum heim á hádegi, þaðan í vinnuna, og afköstin voru ekki góð. Þau geta ekki alltaf verið það.

Að lokum segir Jarlaskáldið bara takk fyrir sig. Þetta verður endurtekið ef lappirnar haldast á manni. Og jafnvel þó svo verði ekki.

mánudagur, mars 05, 2007 

Mars

Þetta er nú orðið ljóta aumingjabloggið. Jarlaskáldið er reyndar þeirrar skoðunar að ef maður hafi lítið eða ekkert til málanna að leggja sé ráðlegast að þegja bara. Eitthvað sem óskaplega margir mættu taka sér til fyrirmyndar. Margir þeirra eru Moggabloggarar.

Jarlaskáldið þykist sumsé hafa frá einhverju að segja fyrst það er sest niður og byrjað að skrifa. Best er sennilega að byrja á því að líta yfir farinn veg, til að auka sagnfræðilegt heimildagildi pistilsins:

23. febrúar hélt aumingjabloggarinn og samstarfsmaðurinn upp á elli sína, 30 ár komin á töfluna og því boðað til veislu. Veislan sú reyndist hin ágætasta, fjölmargt fólk á staðnum sem Skáldið hittir allt of sjaldan og gestgjafinn ónískur á veitingar. Ekki lá leiðin lengra en í Grafarvoginn þetta kvöld, en kvöldið eftir bauð frænkan til samsætis í Hólunum, þar sem var fámennt en góðmennt, uns Stefán Twist sá um að koma hersingunni niður í bæ þaðan sem haldið var á NASA hvar Sálin lék fyrir dansi. Fínasta skrall, enda vanir menn á ferð, bæði hvað varðar Sálina og Skáldið.
Jarlaskáldið var ekki sérlega atorkusamt á sunnudeginum, glápti á Óskarinn fram eftir nóttu og sá eftir því stuttu síðar þegar það vaknaði í vinnuna.

Já, vinnuna. Þar urðu breytingar í síðustu viku, því fimmtudaginn 1. mars flutti Skáldið sig um ca. 10 metra og kom sér fyrir í þýðendaherberginu. Þar hefur það undanfarna daga setið með sveittan skallann og þýtt "úrvalssjónvarpsefni" sem mun birtast á skjánum innan tíðar. Að eigin áliti hefur það gengið bærilega, soldil kúnst að komast inn í þetta, auk þess sem tæknin hefur ekki verið Skáldinu hliðholl, en þetta lofar a.m.k. góðu og ágætis tilbreyting frá próförkunum, sem Skáldið er að vísu ekki laust við, og losnar sennilega seint við.

Síðasta helgi var síðan bara nokkuð heilsusamleg, almenn leti og ómennska á föstudaginn, spilað yfir nokkrum köldum á laugardagskveld og síðan brugðið sér í Bláfjöllin á sunnudeginum, eins og sjá má hér. Fínasti skíðatúr, og ágætisupprifjun fyrir Agureyrishferð 2007, sem einungis 10 dagar eru í. Þangað til er ekki von á miklu, óvissuferð með vinnunni um helgina að vísu, en eðli málsins samkvæmt veit Skáldið lítið um hvernig það verður. Jú, Skáldið þarf að fara að láta laga Lilla. Hann er ekki mikið fyrir að keyra þessa dagana. Litla skinnið...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates