þriðjudagur, apríl 30, 2002 

Nú ætla ég að skrifa um bílinn minn. Það er Volkswagen Golf Memphis, árgerð '89, hvítur á litinn og mikill eðalbíll að öllu leyti. Ég keypti hann fyrir ca. 2 árum og hefur hann staðið sig aðdáunarlega vel síðan þá. Að vísu hefur hann yfirleitt valið mjög slæmar tímasetningar til að bila þá sjaldan hann gerir það. T. d. var það fremur óheppilegt að ég skyldi vera staddur á Akureyri þegar hann ákvað að tapa gírkassanum, og var það einungis hundaheppni að félagi minn Gunnar skyldi vera staddur þar á sama tíma og gat reddað mér heim. Ástæða þess að ég tíunda þetta hér er að ég fór með bílinn í skoðun fyrir skemmstu og komst þá að því að ég þyrfti að skipta um spindilkúlu, annars yrði bíllinn tekinn úr umferð. Ég þarf s.s í fyrsta lagi að komast að því hvað spindilkúla er og síðan að kaupa eina slíka, og vona að Hrói frændi viti hvar hún fer í bílinn. Að vísu hef ég mánuð til þess, svo þetta reddast...

laugardagur, apríl 27, 2002 

Mikið lifandi skelfingar ósköp er kalt! Sumardagurinn fyrsti var á fimmtudaginn og síðan þá hefur hitastigið vart skriðið yfir frostmarkið. Nú er nóg komið, ég er fainn til Kanarí, bless.....

þriðjudagur, apríl 23, 2002 

Hér er víst ætlunin að rita niður það sem leitar á huga minn hverju sinni og ég vil deila með öðrum, þeim vonandi til gagns og/eða gamans. Ástæða þess að ég byrja á þessu núna er sú að ég er þessa dagana að rita mína ágætu B.A.-ritgerð og leita því allra leiða til að finna mér eitthvað annað að gera. Mér liggur að vísu ósköp fátt á hjarta þessa stundina, var að horfa á leik Barcelona-Real Madrid þar sem Börsungar töpuðu 0-2 og er það miður. Þeir vinna þá bara 0-3 á Bernabeau!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates