Jarlaskáldið er komið í sumarfrí. Það er gott að vera í sumarfríi. Þá er hægt að nota tímann til að gera allt það sem maður hafði aldrei tíma til að gera, skella sér í ferðalag, eða gera ekki neitt. Jarlaskáldið ákvað að þessu sinni að gera ekki neitt. Og það sér ekki eftir þeirri ákvörðun, skítaveður og svona og því hundleiðinlegt að fara út úr húsi hvort sem er. Svo er líka HM.
En nú er leikur kvöldsins búinn, með nokkuð ánægjulegum úrslitum miðað við þau lið sem eftir eru, og því kannski hægt að nota tímann í eitthvað þarft, sem krefst þess þó ekki að standa upp. Tvær góðar ferðasögur bíða, með afar svipað sögusvið. Byrjum á hinni fyrri:
Fimmvörðuháls 23.-25. júníÞað var vaskur hópur
þriggja undanfara sem hélt í Mörkina ásamt aðstoðarmanni á
tveimur sjálfrennireiðum fimmtudagskvöldið 22. júní í blíðskaparveðri til þess að ná góðu tjaldstæði og slá þar upp tjöldum fyrir þá sem hugðust koma gangandi í Þórsmörkina aðfaranótt laugardagsins. Náðist hið
prýðilegasta tjaldstæði að mati óháðra aðila. Tekið var örlítið forskot á sæluna um leið og tjaldað var, enda veðrið til þess, en
Willy síðan skilinn eftir úttroðinn af farangri og haldið heimleiðis á
Pæjunni, með einn Pólverja að auki sem fékk far út að Stóru-Mörk og virtist vera skíthræddur alla leiðina, enda ekkert verið að spara olíuna. Heim vorum við komnir skömmu eftir miðnætti, að loknu góðu dagsverki.
Það voru ýmsar leiðirnar sem menn höfðu í huga til þess að koma sér í Mörkina.
Jarlaskáldið, Stefán, Haffi og
herra og frú Perri ákváðu að ganga hefðbundna leið norður yfir Fimmvörðuháls,
Vignir og
Eyfi ákváðu að fara hjólandi hina leiðina yfir, og þeir
Andrésson og
Halli Kristins með ykkur á Bylgjunni fóru svokallaða Skerjaleið á skíðum. Auk þeirra hugðust ósköpin öll af fólki að koma akandi á laugardeginum. Pistill þessi mun einkum beinast að fyrstnefnda hópnum, þar eð sagnaritari tilheyrði honum.
Lagt var í hann á sjötta tímanum á föstudegi, og keyrð kunnugleg leið í austur, sem gekk heldur hægt fyrir sig framan af, ekki síst í kringum Hnakkaville þar sem var alger umferðarteppa er náði upp að Ingólfsfjalli.
Subway sá um að metta ferðalanga, og gekk síðan ferðin allvel alla leið austur að Skógum, þar sem leggja átti bílum og brúka þess í stað tvo jafnfljóta. Þangað vorum við
komin skömmu eftir hálfníu, og hittum þar fyrir Dodda draug, sem sannfærði okkur um að skynsamlegt væri að hella í sig
einum bjór til að mýkja okkur fyrir gönguna. Ekki fer maður að mótmæla slíkum reynslubolta. Skömmu fyrir níu vorum við svo ferðbúin og lögðum í fyrstu hindrun,
brekkuna upp með Skógafossi. Gekk hún bara nokkuð vel. Við fengum svo fínasta veður fyrstu kílómetrana, en fljótt tókum við
Haffi að stinga af, enda duglegir að staupa okkur á Opal. Þá var
Jarlaskáldið duglegt við að taka myndir af
fossum. Annars gerðist ekki mikið markvert framan af, Pétur Blöndal kom hlaupandi fram hjá okkur og tók ekki undir gott grín, líklega verið að flýta sér að halda fram einhverri vitleysu í fjölmiðlum.
Um ellefuleytið var fyrsta nestisstopp tekið, og um leið skall á þessi líka fína
þoka. Hún entist að vísu ekki lengi, og var horfin við
brúna yfir Skógá, sem boðar upphafið að skemmtilega kaflanum upp að
Baldvinsskála. Skálinn var
vistlegur að vanda, og leiðin þangað
jafnviðburðarík og fyrr.
Við Baldvinsskála biðum við ca. þrjú korter eftir herra og frú Perra, sem var í það mesta þar sem hitastigið var við frostmark og maður kólnaði því heldur mikið niður. Það var því ekki fyrr en um hálftvöleytið sem við lögðum aftur í hann, upp
snjóbrekkur sem tóku nokkuð í. Undir lok þeirra hittum við svo þá Eyfa og
Vigni sem voru þá búnir að ganga með hjólin meirihluta leiðarinnar. Tókum
gruppefoto.
Eftir þetta lá leiðin niður á við og því heldur auðveldari. Auk þess var
skyggnið algör snilld, svo þetta reyndist nú meira en erfiðisins virði eftir allt saman, þótt maður væri vissulega farinn að finna aðeins fyrir löppunum þegar þarna var komið sögu.
Brattafönn var tekin á valhoppi, og
Heljarkamburinn ekkert síður. SVo Morinsheiðin og niður á Kattahryggi, þar sem
slátrað var einum köldum með brekku á báðar hliðar. Nokkuð ljúfur. Niður á tjaldstæði skiluðum við okkur að lokum stuttu eftir fjögur, rúmum sjö stundum eftir að við lögðum af stað. Ekki svo slæmt, fannst okkur. Þar heilsaði okkur vel drukkin kona sem gat ekki stillt sig um að lýsa fegurð okkar í ófáum orðum. Fallegt af henni. Sturtan var alveg 200 krónanna virði. Eitthvað var svo reynt við að drekka öl, en dýnan reyndist mun meira freistandi innan tíðar. Einhverju eftir að Jarlaskáldið festi svefn kom svo sveittur maður inn í tjald þess og spurði um gistingu. Skáldið áttaði sig ekki alveg á hver maðurinn væri, en bauð gistinguna engu að síður, enda of þreytt til að hafa aðra skoðun. Þetta reyndist svo vera Halli Kristins. Þá hefur maður sofið hjá honum...
Upp úr hádegi var svo að verða ólíft í tjaldinu þannig að dýnan var dregin út og
legið aðeins þar í sólinni. Þegar allir voru svo komnir á ról og mettir var ákveðið að kanna hugsanlega tilvist
heits potts í Húsadal. Sögur af þeim reyndust á rökum reistar, auk þess sem þar var
gufubað sem karlpeningurinn nýtti sér í boði Brüssel. Þröngt máttu sáttir sitja, og það á Adamsklæðunum. Male Bonding maður. Að baðverkum loknum fórum við Haffi að sækja Svenna og hans pakk út við Stóru-Mörk, og eftir það fór svo að stefna í skrall.
Grill,
varðeldur,
skrall,
alls kyns vitleysa. Þeir vita sem verið hafa.
Aftur var það upp úr hádegi sem fólk reis úr rekkju á sunnudeginum, og hófu skömmu síðar að bera saman bækur sínar eftir ævintýri næturinnar. Enginn virtist hafa ratað í mikil skakkaföll, fyrir utan Haffa, sem skartaði myndarlegu
kvennfari. Eftir
þetta kvendi. Stórhættulegt greinilega. Fólk týndist svo heim eitt af öðru, en Willy hans Stebba ákvað að tefja aðeins á okkur síðustu mönnum með því að
bila eins og honum er einum lagið. Það reddaðist eftir smávesen, kom með
plumbernum. Komumst heim að lokum.
Sagan af síðustu helgi kemur um leið og álit Persónuverndar berst. Vonandi fljótlega.