« Home | 2012 » | Músík ársins » | 10 ár » | Músík ársins » | Músík ársins » | 2009 » | Árið 2008 í myndum » | Lilli er látinn » | París » | Lance Armstrong » 

þriðjudagur, janúar 07, 2014 

Músík ársinsHér koma 20 lög í engri sérstakri röð, 10 íslensk og 10 erlend, sem mér fannst standa upp úr á árinu. Aðeins eitt lag er með hverjum flytjanda, annars hefði listinn litið eitthvað öðruvísi út. En vindum okkur í þetta.

Arcade Fire - Reflektor: Ein af mínum uppáhaldshljómsveitum, hef reyndar skammarlega lítið hlustað á nýju plötuna en hún lofar góðu, eins og flest sem þessi ágæta sveit gerir.

Drangar - Bál: Ný íslensk súpergrúppa, ef svo mætti segja. Þegar þessir þrír snillingar koma saman getur útkoman ekki orðið annað en góð.

Daft Punk - Get Lucky: Þetta er einfaldlega lag ársins, fram hjá því verður ekki litið. Maður þyrfti að vera framsóknarmaður til að finnast þetta leiðinlegt.

Emilíana Torrini - Speed Of Dark: Hef sosum ekki mikið um þetta lag að segja, það er bara gott, og Þórey fílar það. Það kemur því á listann.

Justin Timberlake - Mirrors: Justin vinur minn fær að vera með að þessu sinni, hann var svo duglegur á árinu, gaf út tvær plötur og allt.

Hjaltalín - We: Þessi plata kom vissulega út 2012, en það fór lítið fyrir henni í byrjun og ég fattaði hana ekki fyrr en á þessu ári. Algjörlega frábær plata, og þetta bara eitt af mörgum lögum sem ég hefði getað valið.

M83 - Steve McQueen: M83 átti eitt allra besta lag ársins 2012, og þótt þetta nái kannski ekki alveg sömu hæðum dugar það til að rata á listann.

Kött Grá Pjé - Aheybaró: Reggí er greinilega málið þessa dagana, eða einhvers konar útgáfa af því. Ojba Rasta átti fína plötu, en mér fannst þetta einhverra hluta vegna skemmtilegra.

Mumford & Sons - Hopeless Wanderer: Annað lag sem kom út á plötu 2012, en varð ekki vinsælt fyrr en um mitt síðasta ár, og auk þess að vera fínt lag státaði af einhverju sniðugasta myndbandi ársins.

Mammút - Salt: Ég hef einhverra hluta vegna aldrei verið hrifinn af Mammút, en ég sá þau á tónleikum í haust og fannst þau bara fjári góð. Og þetta lag það besta sem ég hef heyrt frá þeim.

Phoenix - Entertainment: Phoenix átti svaka flotta plötu 2009, en svo heyrði ég ekkert meira í henni fyrr en í ár. Og hún bauð upp á ágætis skemmtun, eins og nafnið gefur til kynna.

Sigur Rós - Ísjaki: Sigur Rós gaf út plötu 2012s em var satt best að segja frekar leiðinleg, voðalegt væl eitthvað. En svo kom önnur plata strax ári síðar, þar sem strákarnir voru komnir í rokkgírinn og þá var mun kátara í höllinni.

Robin Thicke - Blurred Lines ft. T.I. & Pharrell: Vafasamt myndband. Enn vafasamari texti. En ef ég hef þetta lag ekki á listanum hafa femínistarnir sigrað.

Sin Fang - What's Wrong With Your Eyes: Auk þess að gefa út góða tónlist ku hann Sindri vera mikill Seinfeld-aðdáandi. Fyrir það fá menn mörg prik.

The National - Graceless: Uppáhaldshljómsveitin mín gaf út enn eina frábæra plötuna í ár, svo mesti vandinn hér var að velja bara eitt lag af plötunni. Þetta varð fyrir valinu, aðallega af því mér finnst trommuleikurinn í laginu svo flottur.

Skálmöld og Sinfó - Hel: Fór á þessa tónleika í lok nóvember og varð það sem Kaninn kallar "blown away", eins og líklega flestir í salnum þetta kvöld. Þessir drengir eru þvílíkir snillingar að það hálfa væri nóg, og eins og oft áður hefði ég getað valið mörg önnur lög.

The Strokes - One Way Trigger: Þessir piltar hafa aldrei náð að fylgja frumburðinum almennilega eftir (sem kom út fyrir 13 árum, úff), en þeir eiga alltaf gott lag hér og þar, þar á meðal þetta.

Tilbury - Northern Comfort: Tilbury var líka á listanum í fyrra, svo eitthvað er Þormóður Dagsson að gera rétt, fyrir utan stórleik í Hullaþáttunum. Þetta er einhvers konar upplífgandi þunglyndistónlist, eins fáránlega og það hljómar.

Vampire Weekend - Diane Young: Allir og afi þeirra hafa verið að velja nýjustu plötu VW plötu ársins, en ég verð að játa að ég hef ekki hlustað nógu vel á hana. Þetta lag rataði þó inn á einhvern playlista hjá mér, og gefur til kynna að ég þurfi að fara að tékka á þessari plötu.

UMTBS - Babylon ft. Arnór Dan: Ultra Mega Technobandið Stefán á heiðurinn af einu mesta stuðlagi Íslandssögunnar (Story of a Star), en það er orðið fjári langt síðan það kom út. Þetta lag bendir til þess að Eyjólfur sé eitthvað að hressast.

Hér má síðan finna öll lögin í röð á YouTube, og vilji einhver nálgast öryggisafrit til að setja í tónhlöður sínar eða á aðra stafræna miðla er hægt að nálgast þau hér. Góðar stundir.

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates