laugardagur, desember 29, 2007 

Árspistill

2007 var gott ár. Þá hætti Jarlaskáldið líka að blogga. Ekki að það sé endilega samhengi þar á milli.
Hvernig væri annars að rifja þetta aðeins upp?Árið hófst á svölunum hjá Gústa frænda, merkilegt nokk á nákvæmlega sama stað og því síðasta lauk. Fínasta partí eins og við er að búast á þeim bænum.Það gerðist ekkert ægilega margt merkilegt stærstan hluta janúarmánaðar, ekki fyrr en alveg undir lokin eða þann 27. janúar þegar Skáldið brá sér við þriðja mann til Austurríkis og eyddi næstu 11 dögum að mestu við skíðaiðkun víðs vegar í Ölpunum. Ansi góð ferð, enda á að endurtaka leikinn þann 12. janúar.Febrúarmánuður var tíðindalítill fyrir utan skíðaferðina miklu, en í byrjun mars skellti Skáldið sér í óvissuferð með Flutnings- og þýðingadeildinni í vinnunni, þá nýorðið þýðandi við þá deild eftir farsælan feril sem prófarkalesari. Líflegasta ferð og Skáldið öllu fróðara um mannlíf í krummaskuðum Reykjanesskagans.Viku síðar fór Vinafélagið í sína árlegu menningarferð norður yfir heiðar og skemmti sér konunglega enda allt á kafi í snjó. Svo mikið var fjörið að sumir fóru ekki heim fyrr en á mánudegi, þó að kannski hafi ófærð líka haft eitthvað um það að segja.Enn var boðið upp á óvissuferð í vinnunni undir lok marsmánuðar, enda fyrirtækið þekkt fyrir að vita sjaldnast hvað það er að gera. Í þessari ferð var mikið köntríþema, sem vakti lukku.Jarlaskáldið fékk sér labbitúr á skírdag, 5. apríl, og stefndi á Heklutind með plankann á bakinu. Ekki komst það alla leið sökum mikils harðfennis, en það var skrautlegt að skíða niður.Miðvikudaginn 11. apríl skellti Jarlaskáldið sér svo í fótbolta og uppskar brotinn úlnlið sem þýddi að næstu sex vikurnar skartaði það forláta gifsi á vinstri hendi. Þess má til gamans geta að höndin er ekki enn orðin jafngóð.Brotinn úlnliður þýddi ekki að Jarlaskáldið sleppti árlegum túr á Snæfellsnes á sumardaginn fyrsta, Haffi reddaði bara húsbíl og við skelltum okkur í útsýnistúr í kringum nesið í stað þess að arka á jökul. Alveg ágætt, en jökullinn verður tekinn næst ef lukkan lofar.Fyrsta útilega ársins var farin í Mörkina 30. apríl. Alltaf gaman að koma þangað, enda var þetta ekki síðasta heimsóknin á árinu.Toggi var steggjaður vítt og breitt um Suðurlandsundirlendið 5. maí og er sjálfsagt enn að jafna sig eftir það.Fyrsti árlegi Túristadagurinn var haldinn hátíðlegur 19. maí, og var Reykjavík áfangastaðurinn að þessu sinni. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um næstu heimsókn.Jarlaskáldið losnaði við gifsið 22. maí og hélt upp á það með því að arka upp á Esju. Létt verk og löðurmannlegt.Hvítasunnan var haldin hátíðleg í Skaftafelli eins og nokkrum sinnum áður og var það góðmennur fögnuður sem fór að mestu leyti friðsamlega fram enda Suðurnesjamenn með pottaóþol í lágmarki.Júní fór af stað með útilegu á Bakkaflöt í Skagafirði, sundspretti í Grettislaug og borgara í Kántríbæ. Ágætis byrjun það.Ekki þótti þorandi að fara í útilegu helgina eftir svo innileg innilega varð fyrir valinu. Hún reyndist bæði klámfengin og undarleg, og þá er ekki bara verið að tala um kraftgallann í gufubaðinu.Þjóðhátíðardeginum var fagnað í Þakgili, og aftur var húsbíllinn Fífí með í för. Góður farskjóti, hún Fífí.Að venju var arkað yfir Fimmvörðuháls um Jónsmessuhelgina og skrallað í Mörkinni að því loknu. Vignir var buxum fátækari eftir það ævintýri.Aftur var Mörkin heimsótt viku síðar í árlegri árshátíð Vinafélagsins auk þess sem Jarlaskáldið kynnti til sögunnar nýjan meðlim í félaginu.Toggi og Dilla buðu til brullaupsveislu á Bjarteyjarsandi aðra helgina í júlí þótt sjálft brullaupið hefði farið fram tveim vikum áður. Góð veisla engu að síður.Jarlaskáldið skellti sér aftur á Snæfellsnes ásamt spúsu sinni í lok júlí í blíðviðri, a.m.k. framan af. Hún vill meina að þetta sé fallegasti staður Íslands. Jújú, þetta er sosum alveg snoturt.Verslunarmannahelgi: Þjóðhátíð. Í síðasta sinn eins og venjulega.Herra og frú Jarlaskáld skelltu sér í aldeilis prýðilega ferð vítt og breitt um Vestfirði um miðjan ágúst og fengu gott veður allan tímann. Hvaða líkur eru á því?Síðasta stórafrek sumarsins var að fara á Blómstrandi daga í Hveragerði og hlýða á Ljóta hálfvita og kíkja svo á Landmannalaugar daginn eftir. Ef einhver lesenda hefur séð einhvern í svartri flíspeysu sem er merkt "Alda" síðan þá má hann hafa samband. Þetta hefur verið þjófurinn.Um miðjan september bauð frúin Jarlaskáldinu í helgarferð til Helsinki í einkaþotu. Frekar súrrealískt fyrir saklausan gettópilt úr Breiðholtinu, en þetta hlýtur að venjast.Það var skammt stórra högga á milli í september því tveim vikum síðar var Stóra eplið heimsótt. Nokkuð mögnuð borg, og North Face búðin á Broadway hefur sennilega greitt góðan jólabónus í ár eftir þessa heimsókn okkar.24. október varð Jarlaskáldið þrítugt, ótrúlegt en satt, enda lítur það ekki út fyrir að vera degi eldra en 21 árs í mesta lagi. Haldið var partí, og þótti það gott partí.Viku síðar var La Grande Bouffe haldið hátíðlegt í Ríkinu með humarsúpu, lambaketi og almennri gleði, en einnig örlitlu klámi eins og tilheyrir.Í desemberbyrjun var skíðaferð norður í land, sem var reyndar þeim annmörkum háð að engin skíðasvæði voru opin. Þá var bara að skella sér á tónleika og í bíltúr, sem var ágætis sárabót.Um miðjan jólamánuðinn fóru svo fjórir sveinar í síðustu Merkurferðina og hittu m.a.s. sjálfan jólasveininn. Hann gleymdi reyndar að setja í skóinn hjá okkur, svo kannski var hann bara plat.Og síðasta ári lauk á tröppunum heima hjá systu með kampavín í glasi og þá heittelskuðu sér við hlið. Jarlaskáldið biður ekki um meira, og hver veit nema að andinn komi yfir það og það bloggi eitthvað á þessu ári. Oseiseijú...

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates