föstudagur, desember 17, 2010 

Músík ársins
Hér koma 20 lög í engri sérstakri röð sem mér fannst standa upp úr á árinu. Aðeins eitt lag er með hverjum flytjanda, annars hefði listinn litið eitthvað öðruvísi út. En vindum okkur í þetta:

The National - Runaway:
The National er besta hljómsveit í heimi, High Violet er besta plata ársins, og þetta er eitt besta lagið á plötunni. Meira er ekki um það að segja.

Florence and The Machine - The Dog Days Are Over:
Kom strangt til tekið út árið 2009, en vakti ekki almenna athygli fyrr en í sumar, og er svona líka hressandi.

Lifun - Ein stök ást:
Lag Pauls McCartney með íslenskum texta, og það er ekki annað hægt en að komast í gott skap þegar maður heyrir þetta.

Belle And Sebastian - I Want The World To Stop:
Skosku poppararnir hafa lengi verið í hávegum hafðir á þessu heimili og gáfu út fína plötu á árinu sem hefur ekki farið hátt. Hana ættu allir að fá sér.

MGMT - Brian Eno:
MGMT gaf út stórfurðulega plötu á árinu, a.m.k. á hún lítið skylt við hittara eins og Time to Pretend og Kids. Hún er engu að síður þrælskemmtileg, og þessi sækadelía er hreint afbragð.

Páll Óskar og Memfismafían - Gordjöss:
Þetta lag kemur manni einfaldlega í stuð, og það er ekki lítið afrek.

Vampire Weekend - Jonathan Low:
Vampire Weekend gaf út eina bestu plötu síðasta árs, en þetta lag er að finna á soundtrackinu fyrir einhverja Twilight-myndina, sem er sjálfsagt 100 sinnum betra en myndin, því þar er margt góðgætið að finna.

Bombay Bicycle Club - Rinse Me Down:
Upphafslag akústísku plötunnar Flaws, hefði einnig getað valið Ivy & Gold en það er eitthvað við bítið í þessu...

Retro Stefson - Mama Angola:
Ef þú hefur ekki gaman af þessu lagi hef ég slæmar fréttir að færa þér. Þú ert sennilega látinn.

Gorillaz - On Melancholy Hill:
Hef ekki gefið mér tíma til að hlusta vel á Gorillaz-plötuna, en þetta greip athyglina strax við fyrstu hlustun og þetta hálf-barnalega stef í laginu er bara að virka.

Arcade Fire - Empty Room:
Það eru sennilega 5-6 lög á The Suburbs sem hefðu getað ratað á þennan lista, en þetta varð fyrir valinu af því ég nota það sem hringitón þessa dagana og hef ekki misst af símtali síðan ég stillti á það.

Hjaltalín - Feels Like Sugar:
Þetta lag á eftir að minna mig á fyrstu helgina í júlí á Dýrafjarðardögum á Þingeyri um langa hríð. Góð helgi, og gott lag.

Jay-Z og Alicia Keys - Empire State of Mind:
Mig langar alltaf að heimsækja New York aftur, en aldrei meira en þegar ég heyri þetta lag, sem er ansi oft, því það er fjári gott.

Edward Sharpe and The Magnetic Zeros - Home:
Þetta hljómar eins og eitthvert country-hillbilly-hipparokk, og ég hef ekki heyrt neitt annað með þessari hljómsveit, eða hvað sem þetta er, en þetta svínvirkar.

Sigurður Guðmundsson og Memfismafían - Þitt auga:
Sigurður Guðmundsson er ófær um að syngja vont lag, virðist vera, og þetta er gott dæmi um það.

Alicia Keys - Try Sleeping Wit A Broken Heart:
Tvö lög með Aliciu Keys á árslistanum? Ég er hræddur um það...

Cee-Lo - Fuck You:
Sjaldan eða aldrei hefur gamli sénsinn verið dissaður á jafnupplífgandi hátt.

Jónsi - Animal Arithmetic:
Þetta lag passa ég að hafa alltaf á playlistanum þegar ég fer út að hlaupa, og maður virðist alltaf auka hraðann þegar það byrjar. Gaman, gaman.

Familjen - När planeterna stannat:
Það er ekki hægt að senda frá sér lista með góðri músík án þess að hafa a.m.k. einn Svía.

Scissor Sisters - Fire With Fire:
Og enn síður er hægt að undanskilja samkynhneigða. Best að enda á því.

Og jólagjöfin í ár er þessi, og ef menn vilja frekar marga litla pakka er hægt að fara hingað. Njótið vel!

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates