fimmtudagur, mars 31, 2005 

Bévítans sker!

Já, Skáldið er komið heim á skerið, og þjáist nú til skiptis af heimþrá til heimahaganna á Ítalíu og lægðarveiki (ókei, kannski er sá sjúkdómur ekki til, en það er ágætis útskýring á því að vera þreyttari en andskotinn þessa dagana). Ef Jarlaskáldið nær til þess heilsu mun það sjálfsagt rita ógnarlanga og samhengislausa ferðasögu sem í mesta lagi tveir lesa, en til að gefa lesendum hugmynd um hvað fram fór má benda á þetta, þetta og þetta. Það á enn eftir að bæta við myndum, Jarlaskáldinu reiknast til að bara þess myndir hafi verið nálægt þúsundinu.

Þær stórfréttir voru annars helstar að Íslendingum fjölgaði um tvo einstaklinga á meðan Skáldið var erlendis, og þá misgóða. Annar þeirra er geðsjúkt gamalmenni sem einu sinni var mesti nörd heimsins og fólki fannst mikið til þess koma þá, og greinilega enn í dag einhverjum ótrúlegt en satt. Hinn Íslendingurinn ætti þegar fram í sækir að verða landinu til öllu meiri sóma, en það er þessi hérna. Þórey Hildur heitir hnátan sú, dóttir hjónanna Arnars og Gullu, sem gerir Skáldið að móðurbróður hennar. Það vita nú sumir að ekki er slæmt að eiga Skáldið fyrir frænda.

miðvikudagur, mars 23, 2005 

Djöfull eruði klikkuð maður!

Svo mælti piltur einn ungur sem naut þeirra forréttinda að skíða með VÍN-verjum í dag. Mælti hann svo er hann sá úrvalsdeild VÍN panta sér öl eftir fyrstu ferð dagsins. Fyrsta ferð dagsins var reyndar ekkert slor, því hún var niður af hæsta tindi Dólómítanna, Marmolada, og þangað fórum við með þyrlu. Sem var ekki leiðinlegt. Annars er Jarlaskáldið komið með sérmyndasíðu hjá Togga, sem uppfærð verður reglulega, hvar fylgjast má með ævintýrum þess á erlendri grund í myndum en ekki máli. Ferðasagan kemur síðar. En djöfull er gaman hérna!

--------------------------------------------------------------------------------

sunnudagur, mars 20, 2005 

Nei sko, internettenging!

Hér er pínku gaman. Eiginlega bara helvíti gaman. Og hér er sönnun þess.
--------------------------------------------------------------------------

laugardagur, mars 19, 2005 

Hættur, farinn

Eftir tæpa 5 tíma mun Jarlaskáldið opna bjór. Nokkrum stundum síðar heldur það af landi brott. 10 dögum síðar kemur það heim. Þá verða bjórarnir orðnir fleiri.

Þið þarna sem hangið á skerinu á meðan: Gott á ykkur!

----------------------------------------------------------------------------------

miðvikudagur, mars 16, 2005 

... og það styttist

Áður en vikið verður að aðalefni þessa greinarkorns er rétt að sinna sagnfræðinni aðeins, hvað hefur gerst síðan síðast.

Fimmtudaginn síðasta mátti Skáldið gjöra svo vel að vakna um sexleytið og skutla þeim gömlu út á Miðnesheiði, en þau ákváðu að sýna það ábyrgðarleysi að bregða sér af landi brott yfir helgina og skilja Skáldið því sem næst bjargarlaust eftir heima. Þrátt fyrir eftirlitsleysið tókst Skáldinu að þrauka helgina, ekki síst með hjálp ýmissa amerískra auðhringja. Á föstudagskvöldið nýtti Skáldið sér síðan einveruna, ef svo mætti segja, og bauð til eilítillar veislu í Skáldasetrinu. Var tilgangur hennar einkum sá að glápa á sjónvarpið, í bland við heilbrigðari skemmtun. Var veislan ágætlega sótt þótt ekki sé hægt að tala um margmenni, og voru gestir allt frá ættingjum til ókunnugra. Skrílslæti voru með minnsta móti, og skemmdir litlar sem engar. Fleygði Skáldið gestum á dyr einhverju eftir miðnætti og munu margir hafa ratað á skemmtistaðinn 22, sumir rötuðu eitthvert annað eða jafnvel bara ekki og eru enn týndir. Þeir hljóta að finnast með vorinu.

Þau gömlu skiluðu sér loks heim aðfaranótt mánudags, ekki seinna vænna, og komu vitaskuld ekki tómhent, Skáldið fékk fyrirtaks göngubuxur og svo auðvitað eitthvert nammi. Síðan hefur Skáldið beðið (af sögninni bíða, ekki biðja), óþreyjufullt mjög...

Og því bíður Skáldið svo óþreyjufullt? Því hagar Skáldið sér líkt og 6 ára krakki fyrir mat á aðfangadag, gjörsamlega viðþolslaust af spenningi. Það er von að lesendur spyrji, og þó ekki, það er ansi athyglislaus lesandi sem ekki veit hvað stendur til á næstu dögum í lífi Skáldsins, á það hefur verið reglulega og rækilega minnst síðustu átta mánuðina eða svo. Já, það hyllir loks undir að Jarlaskáldið bregði sér suður til Ítalíu, nánar tiltekið Suður-Týrol, enn nánar tiltekið Gardenadals, og til að hafa þetta andskoti nógu nákvæmt, bæjarins Selva (eða Wolkenstein, kjósi menn þýska heitið). Er þetta þriðja árið í röð sem Skáldið ákveður að setja sig algerlega á hausinn til þess eins að renna sér á snjóbretti niður brekkur fyrri part dags og djamma af sér hausinn seinni partinn (þótt oft sé nú byrjað fyrr) um 10 daga skeið í fögrum hlíðum Dólómítanna. Ekki slæmur díll ef menn spyrja Skáldið. Árið 2003 var farið til Val di Fiemme í janúarmánuði, rétt tæplega ári seinna til Madonna di Campiglio, og nú 19. mars verður það Selva, hluti af stærsta (að sögn) skíðasvæði heims, með aðgangi að ríflega 460 lyftum og tæplega einum Hringveg af skíðaleiðum. Þangað hefur Skáldið reyndar komið áður, í ferðinni til Val di Fiemme fyrir tveimur árum var litið við í Selva, svo Skáldið hefur ágæta hugmynd um í hvað það stefnir. Ekki er það slæm hugmynd!
Ein helsta breytingin frá fyrri árum er vafalaust tímasetningin; í stað þess að fara um miðjan janúar er farið undir lok mars. Þetta hefur ýmislegt í för með sér. Hið jákvæða er að veður ætti að verða til mikillar fyrirmyndar, yfirleitt sól og blíða og jafnvel hægt að skíða á bolnum, í stað þess að norpa í 15 stiga frosti eins og oft gerist í janúar. Hið neikvæða er eiginlega alveg það sama, veðrið. Búast má við að hitastigið verði meira og minna yfir frostmarki yfir daginn og sól þannig að undir lok dagsins verður færið líklega ekki upp á marga fiska. T.d. náði hitinn 12 stigum á „láglendi“ (1500 m) í dag. Þá eru ekki miklar líkur á lenda í nýföllnum púðursnjó, en Ítalarnir kunna sitt fag og framleiða snjó linnulaust þegar frystir svo Skáldið hefur ekki stórar áhyggjur af þessu. Það má þá alltaf setjast niður með einn kaldan í sólinni ef snjóinn vantar!
Eins og áður getur hefur verið 8 mánaða aðdragandi að för þessari (reyndar var byrjað að ræða um hana strax í janúar 2003, en það er önnur saga), og hefur hann ekki verið alveg laus við sviptingar. Um miðjan júlí í fyrra pöntuðu Skáldið, Vignir, Stebbi Twist, Alda, Magnús Blöndahl, Snorri perri, Toggi og Dýrleif far og gistingu á Somont-hótelinu (***). Stuttu síðar bættist Katý í hópinn og auk hennar Týrólabræður, sem reyndar fengu vist á öðru hóteli.
Svo gerðist ekki margt lengi vel, fólk sinnti sínum bisness næstu mánuði, og má fræðast um það á síðu þessari m.a. En svo fór fólk að heltast úr lestinni. Ekki þarf að koma á óvart að Magnús Blöndudalur varð fyrstur til þess fyrir einhverjum mánuðum síðan. Fyrir ekki svo löngu síðan fylgdi Adolf svo í kjölfarið. Í þeirra stað kemur liðsauki frá Austurríki, hjónaleysin Eyfi og Ríkey frá Innbrú ætla að heiðra samkomuna um þriggja daga skeið og er það vel.
Fyrir nokkrum dögum varð síðan síðasta breytingin. Somont-hótelið (***)var víst yfirbókað og VÍN-verjar því á götunni. Ekki alveg reyndar, var okkur boðin gisting á Miravalle-hótelinu (****) í sárabætur, í svítu nota bene, auk þess sem við fáum 50% afslátt af skíðapössum. Það má sætta sig við það.

Sumsé, 9 manns eru á leið til Ítalíu á laugardagsmorgun, auk þess sem 2 hitta okkur þar, og þeir sem verða eftir heima mega búast við að fá örfá smáskilaboð send gegnum síma eða jafnvel símtöl ef menn verða mjög hressir. Bókið það!

-------------------------------------------------------------------------------

þriðjudagur, mars 15, 2005 

19.3.2005 - HÖFNUM STRÍÐI!


...förum heldur á skíði!

----------------------------------------------------------------------------

 

Norðlenskir pervertar

Það er ekki að spyrja að bölvuðum sveitavargnum.

Það er nú ágætt að það er tekið fram í fréttinni að þetta hafi verið utanbæjarmaður að norðan...

-------------------------------------------------------------------------------

sunnudagur, mars 13, 2005 

Illa gert

Tvær myndir í röð á RÚV með Meg Ryan? Hvað er verið að gera manni?

------------------------------------------------------------------------

föstudagur, mars 11, 2005 

Partí

Það er víst altalað að það sé Ædolpartí að Skáldinu í kvöld.

Ojæja, verið velkomin!

-------------------------------------------------------------

fimmtudagur, mars 10, 2005 

The Waiting Game

Þriðjudagurinn 13. júlí 2004 var ekki ólíkur flestum þriðjudögum á sumrin, það var örugglega bara svona lala veður, maður mætti í vinnuna klukkan 9 um morguninn og fór heim klukkan 5, og horfði líklega bara á sjónvarpið um kvöldið.

Með einni undantekningu.

Þriðjudaginn 13. júlí 2004 pantaði Jarlaskáldið sér 10 daga skíðaferð til Selva í Val Gardena-héraði á Norður-Ítalíu, áætluð brottför 19. mars 2005.

Það er ansi langur fyrirvari, 8 mánuðir og 6 dagar.

Gaman að rifja þetta upp, nú þegar aðeins 9 dagar eru í brottför...

--------------------------------------------------------------------

þriðjudagur, mars 08, 2005 

Af einu og öðru

Mér er soldið farið að hlakka til að fara til Ítalíu...

Helgi var fyrir skömmu, og þá gerðist eitt og annað í Skáldsins lífi, þótt það hafi ekki þótt nógu merkilegt til að rata á síður fréttablaða. Sem er í raun stórmerkilegt, miðað við þá vitleysu sem annars er birt þar. Anyways, stutt recap:

Föstudagkveldi eyddi Jarlaskáldið eins og svo ægilega oft áður framan við skjái, ýmist tölvu- eða sjónvarps-. Var það farið að hugsa sér að halda í draumalandið þegar Stefán nokkur Twist hafði samband þegar talsvert var liðið á fyrsta tímann og leitaði eftir liðsinni Skáldins á lendum skemmtanalífsins. Það fór eins og það fór, Ölstofan, Hverfisbarinn, Nonni, leigari. Margt er sér til gamans gert.

Laugardagur fór í það að vinna upp svefn, sennilega frá helginni á undan, og þótt Skáldið hafi síðla dags náð einhverri meðvitund, verður seint sagt að það hafi haft mikil áhrif á afköst þess. Á því varð lítil breyting er leið á kvöldið, Skáldið vakti fram eftir og horfði á fremur leiðinlega formúlu, hefði betur sleppt því.

Sunnudagur fór lokst í eitthvað „uppbyggilegt“. VJ vakti Skáldið upp úr hádegi og dró það upp í fjöll, Bláfjöll nánar tiltekið, því þar var víst verið að opna nýja lyftu og frítt í fjallið. Ekki leist okkur ýkja vel á blikuna eftir fyrstu ferð, slagveður og Kóngsgilið lokað, en Öxlin nær ófær vegna krapa. Ákváðum þó að þrauka aðeins, fórum í Eldborgargil, þar var færi skárra, svo í Suðurgil, þar sem veður tók mjög að batna, og að lokum var komin sól og blíða um leið og við fundum brilliant brekku undir nýju stólalyftunni sem var óspart skíðuð svo lengi sem við entumst. Bara fjör það. Fórum svo heim í kringum fimm og fengum okkur borgara hjá Öldu á Eikaborgurum í leiðinni. Ágætis borgari bara hjá stelpunni!
Um kvöldið lauk svo Skáldið Rocky-maraþoni sínu, þegar það horfði á Rocky V, fimmti sunnudagurinn í röð sem Rocky rúlar. They just don't make movies like this any longer!

Já, og svo hlakkar Skáldinu til að fara til Ítalíu eftir 11 daga.


--------------------------------------------------------------------------------

sunnudagur, mars 06, 2005 

Góður diskur

1. Foo Fighters - Everlong
2. Franz Ferdinand - Take Me Out
3. Ham - Partytown (The Groove of Hafnir city)
4. Joy Division - Love Will Tear Us Apart
5. Modest Mouse - Float On
6. OutKast - Hey Ya!
7. Queens of the Stone Age - No One Knows
8. Red Hot Chili Peppers - Fortune Faded
9. Johnny Triumph - Lúftgítar
10. Smashing Pumpkins - Disarm
11. U2 - Where the Streets Have No Name
12. Violent Femmes - Blister in the Sun
13. Weezer - Buddy Holly
14. The White Stripes - Seven Nation Army
15. Zucchero - Baila Morena
16. Interpol - Slow Hands
17. The Beastie Boys - Sabotage
18. Blur - Song 2
19. Depeche Mode - Everything Counts (Live)
20. Ensími - Atari

----------------------------------------------------------------------

 

Annar góður diskur

1. Radiohead - Fake Plastic Trees
2. Sálin hans Jóns míns - Gagntekinn (Live)
3. Tenacious D - The Greatest Song in the World
4. The Cure - Lovesong
5. The Smiths - How Soon Is Now?
6. The Stone Roses - I Wanna Be Adored
7. Blink 182 - I Miss You
8. Coldplay - Clocks
9. Damien Rice - Volcano
10. Green Day - Time of your Life
11. Interpol - Untitled
12. Johnny Cash - Hurt
13. Maus - Life in a Fishbowl
14. Megas - Þú bíður (allavegana) eftir mér
15. New Order - Blue Monday
16. Pearl Jam - Black
17. The Pixies - Monkey Gone to Heaven

--------------------------------------------------------------------

fimmtudagur, mars 03, 2005 

Agureyrish 2005 - Fuck Yeah!

Agureyrishferðir þess ágæta félagsskapar VÍN hafa í gegnum tíðina verið, ja, mikil ævintýri skulum við segja. Jarlaskáldið hafði þar til fyrir síðustu helgi reyndar aðeins farið í tvær slíkar ferðir, árin 2003 og 2004, og í bæði skiptin ekki komið samt heim, og að sögn elstu manna sem muna var svipað uppi á teningnum árin á undan. Sumsé, sukk og svínarí, í bland við skíðaiðkun þá sjaldan veður og snjóalög leyfðu. Jarlaskáldið bjóst því við fáu öðru en föstum liðum þegar það lagði í hann á áttunda tímanum fimmtudaginn 24. febrúar síðastliðinn. Hér á eftir fer sagan af því hvernig til tókst.

Skráning í Agureyrish 2005 var ágæt miðað við væntingar, allir sem þess áttu kost höfðu boðað komu sína strax nokkrum vikum áður, og þegar leið að brottför hafði aðeins einn gengið úr skaftinu. Getiði hver? Hann hafði reyndar ágætis afsökun, ef uppskurður daginn fyrir brottför er afsökun. Hvað um það. Þar sem sumt fólk er í svo shitty vinnu að það getur ekki fengið frí hvenær sem það vill lagði hópurinn í hann í tveimur hollum, sá síð(a)ri á föstudegi, en sá fyrri(betri) á fimmtudagskvöld sem áður er getið. Skipuðu hóp þann þau skötuhjú Perri og Katý á Galloper, Toggi og Frændi á Bjöllu, og loks Twisturinn, Alda og sjálft Skáldið á úrvals fjallabíl af japanskri gerð. Þó ekki Lilla.
Brottför var sumsé gerð frá höfuðstaðnum um kvöldmatarleyti og skemmti fólk sér eins og hægt var á leið norður. Annars fátt merkilegt sem gerðist á leiðinni, ca. fimm tímum eftir brottför var lent á Agureyrish, lykli reddað að tveimur íbúðum Rafiðnaðarsambandsins í Furulundi sem hafa oft áður hýst liðið, og þegar fólk hafði komið sér fyrir fengu menn sér smá kvöldhressingu, Frændi montaði sig af nýju skíðunum sínum og Perrinn æfði Magnum-lúkkið en annars var gengið í fyrra fallinu til náða, alla vega sé miðað við það sem eftir átti að koma...

Úr rekkju var risið upp úr ellefu, og fyrst farið í það að redda næringu í næsta bakaríi og sinna öðrum morgunverkum. Úti var þessi skemmtilega þoka en að sögn betra skyggni í Hlíðarfjalli, þar sem opna átti klukkan eitt. Áður en þangað var hægt að halda þurfti að sjálfsögðu að bæta á birgðir og það hressilega, enda vitað hvað í vændum væri, en svo keyrt beint upp í fjall. Á leiðinni létti heldur betur til, bærinn leit svona út, en fjallið svona. Maður hefur vissulega séð meiri snjó (nei, í alvöru?), en ekki oft lent í betra veðri.
Svo var skíðað. Og skíðað. Og tekin pása. Og svo skíðað meira. Og svo framvegis. Strýtan var aðeins opin hálfa leið og einungis ráðlögð "mjög færum", þannig að auðvitað var mestum tíma varið þar. Ekki merkileg skíðamennska stunduð, en veðrið var a.m.k. bingó.
Á milli fimm og sex gafst liðið upp og hélt heim á leið, og þaðan héldu flestir í sund, enda engin vanþörf á. Ákveðið var að grilla um kvöldið og til þess keypt ket og meððí í Hagkaupum. Var svo slegið upp Idol-partí í Furulundnum (ekki það að Idol sé gaman, en miðað við ástand gesta hefði Oprah dugað) Skáldið komst að því síðan að The Sketch Show er bara snilld. Í teitina bættist liðsauki, Týrólabræður mættu galvaskir en þeir sem áttu að koma á sama tíma mættu ekki, herra og frú Andrésson ásamt Vigni lentu í því í Hrútafirðinum að dekk losnaði næstum af Barbí og braut nokkra hjólabolta svo þau þurftu að snúa við. Og eru þar með úr sögu þessari. Óvæntasti (en þó ekki) liðsaukinn var samt frænkan ásamt viðhengi, sem bættu í það minnsta verulega kynjahlutföll. Eftir að hafa heillað þessa kvenkyns gesti með hæfileikum okkar í bjórdrykkju var haldið á hinar norðlensku lendur skemmtanalífsins, eins og iðulega á Kaffi Agureyrish. Ekki fer miklum sögum af afrekum þar. Síðla nætur var haldið heim á leið en fjörið hvergi búið. Hafði m.a.s. bæst í hópinn á leiðinni, og gleðinni haldið áfram vel fram á sjötta tímann a.m.k. Einhvern tímann rataði svo liðið í bælið, og að sögn mun hafa heyrst marr úr einhverjum herbergjum stuttu síðar. Hvað þar var á ferð er ómögulegt að segja...

Það var mismikill hressleiki á ferð á laugardagsmorgun. Afar mismikill. Flestum tókst að dröslast upp í fjall, en ekki öllum. Jarlaskáldið ætlar annars ekki að eyða mörgum orðum í skíðadaginn, hann var nokkurn veginn eins og daginn áður fram yfir sundferð. Myndirnar duga. Um kvöldið var síðan haldið á Greifann að góðum sið, og var biðin eftir matnum jafnvel enn lengri en venjulega, ca. klukkutími. Ojæja, það gefst þá tími til að teyga ölið og vera sniðugur. Eftir mat var svo hefðbundin dagskrá (eins og sést hér á Frænda), frænkan þorði að mæta aftur og alles ásamt vinkonu sinni, hugaðar stúlkur mjög. Kvöldið fór svo svipaða leið og búast mátti við, endað í bænum eftir dúk og disk og sitthvað brallað, Skáldið gerði ýmis afrek, merkast þeirra var e.t.v að komast frítt með leigubíl til síns heima. Þar var enginn með lífi, svo Skáldið setti disk á fóninn, stillti á góðan styrk, og hallaði sér í sófann. Hvað meira, ekki gott að segja...

Sunnudagur. Skáldið var vakið með hávaða og látum og var þá því til furðu komið inn í koju. Rýma skyldi húsið í flýti og halda norður á Sauðárkrók og freista þess að finna góða skíðabrekku. Ekki var Skáldið sérlega vel í stakk búið til þess, gærkvöldið eitthvað að væflast fyrir því, en dröslaðist þó á fætur og gerði sitt besta til að taka saman drasl sitt og koma út í bíl. Það tókst, og upp úr hádegi var Furulundurinn kvaddur með loforði um að líta aftur við að ári. Leiðin vestur í Skagafjörð var tíðindalítil, og eftir nokkra leit fannst skíðabrekkan í Tindastóli. Hún leit alveg ágætlega út svo Skáldið lét leiðast til að kaupa dagskort, sem og nokkrir aðrir, en einhverjir héldu strax heimleiðis, þar á meðal frökenin sem var með oss Stefáni í bíl. Brekkan var svona la la, ágætlega brött fyrst en svo langur flatur kafli sem vegna mótvinds þurfti að bruna til að komast á leiðarenda. Gáfust því flestir fljótlega upp á þessu, en við Stefán entumst lengst enda báðir óhemju þrjóskir. Þess ber að geta að Skáldið var varla í ástandi til að ganga, hvað þá til að skíða, en stundum þarf bara að láta sig hafa það. Við gáfumst svo upp á þessu að lokum og héldum vestur yfir Þverárfjallið og stefndum á Skagaströnd til að fá okkur borgara í Kántríbæ. Þar var illu heilli lokað svo við máttum gera okkur að góðu Blönduóssborgara, sem voru reyndar ágætir. Frá Blönduósi var ferðin tíðindalaus, Skáldið kom heim til sín á áttunda tímanum, horfði á Rocky IV um kvöldið og Óskarinn um nóttina, og var allt annað en hresst daginn eftir...

Einkunnagjöf: Erfitt að gefa einkunn, þessi ferð var betri en 2004, en ekki alveg jafngóð og 2003. Hvað sem því líður, með betri helgum ársins!

Að lokum: Jarlaskáldið útbjó sérstakan Agureyrish 2005 geisladisk. Hann leit svona út:

1. Egó - Fjöllin hafa vakað
2. Sniglabandið - Eyjólfur hressist
3. Team America - America, Fuck Yeah!
4. The Strokes - Reptilia
5. The White Stripes - Let's Build a Home
6. The Killers - Mr. Brightside
7. O-Zone - Dragostea Din Tei
8. Jan Mayen - On a Mission
9. Sniglabandið - Þið munið öll hann Jörund
10. Madness - It Must Be Love
11. Team America - Freedom Isn't Free
12. Kenny Loggins - Footloose
13. Team America - America, Fuck Yeah! (Bummer remix)
14. S/H Draumur - Öxnadalsheiði
15. The Tokens - The Lion Sleeps Tonite
16. Guðjón Rúdolf - Húfan mín
17. Beck - El-Pro
18. Modest Mouse - Float on
19. Boston - More Than a Feeling
20. David Brent - Handbags and Gladrags
21. Scissor Sisters - Take Your Mama Out
22. David Brent - If You Don't Know Me by Now
23. Scissor Sisters - Take Me Out (Franz Ferdinand Cover)
24. Elvis Presley vs. JXL - Little Less Conversation
25. Bloc Party - So Here We Are
26. David Brent - Freelove on the Freeway

----------------------------------------------------------------------------------

 

16


Þetta lítur bara vel út...

-----------------------------------------------------------------------------

Teljari

Powered by Blogger
and Blogger Templates